 |
 |
wsunnudagur, janúar 19, 2003 |
 |
 |
 |

Við fengum matreiðslubók í jólagjöf sem við byrjuðum að brúka í vikunni. Alveg ótrúlega skemmtileg, vel upp sett og einföld (sniðin að þörfum Vesturfaranna). Héldum í mikinn verslunar leiðangur í liðinni viku og versluðum allt á ,,Neyðarlistanum”. Alveg ótrúlegustu hlutir sem búa í skápunum okkar nú. Með því að eiga allt á listanum getum við hent saman dýrindis máltíð með lítilli fyrirhöfn (og eftir nákvæmum leiðbeiningum). Kolla er búin að taka bókina ástfóstri og nú er svo komið að eldhús sem áður einkenndist af alltof miklu testosteróni og fjölbreytni eftir því er farið að gefa frá sér dýrindis rétti af öllum gerðum, brögðum og stærðum. Kolla er sem sagt mætt í eldhúsið af fullum krafti!
Ég skipti yfir í Honours programmið í vikunni. Töluvert kröfuharðari leið sem gefur minna svigrúm. Ég ákvað það eftir fund með prófessornum sem ég er að aðstoða en hann bauð mér að hjálpa mér við lokaritgerðina færi ég Honours leiðina. Ég get notað gögn sem ég mun aðstoða hann við að safna á þessari önn. Ég mun því reyna færa rök fyrir því, með frumgögnum, að einstaklingar með frjálsum framlögum séu fullkomlega færir um að fjármagna framkvæmdir og þjónustu sem okkur finnst ómögulegt að aðrir en ríkið geri nú. Heilbrigðisþjónustu fyrir fátæka, brýr, vegi og í raun hvað sem er. Trú mín á frjálshyggjuna fær því einnig að njóta sín til fulls, mjög gaman að því. Er líka að fara á fullt með hugmyndina mína og Sigríðar systur Kollu. Er á leið með hana í frumkvöðlakeppni sem skólinn stendur fyrir þar sem á auðvitað að sigra og ræsa keðjuverkun sem á svo að koma ættarveldunum tveimur, Árdal og Guðmundsson, enn hærra á stjörnuhimininn með tilheyrandi alsnægtum og ríkidæmi!! :)
Erum ennþá að berjast við að koma lín málum almennilega á hreint, vorum í heilsársáföngum sem við fengum mið-annar einkunn úr eftir jólin, en til að fá full námslán frá LÍN verðum við að sína fram á lokaeinkunn í öllum fögum. Það fór töluverður tími í að vesenast í kringum það en allt nú komið í farveg. Við erum nú með fjármagn til að borga skólagjöldin okkar fyrir þessa önn, en leigu og bílatryggingar þurfum við ekki að greiða fyrr en í lok feb...svo við erum ekkert að stressa okkur neitt of mikið á því að klára það, þó svo allt þurfi auðvitað að komast á hreint.
Fórum til Halifax á föstudaginn með fullt af fólki sem við þekkjum í rútu, fórum kl 7 og komum heim aftur með rútunni kl 2 um nóttina. Hringdum í Björgvin, íslending sem er í námi í Halifax, og hann hitti okkur seinna um kvöldið. Óhætt að segja að það hafi allir verið orðnir mjög ,,kátir” þegar hann mætti og skemmtum við okkur rosa vel (þó það hefði óneitanlega verið skemmtilegra að fá hann fyrr um kvöldið með okkur). Nú er svo komið að djamm hefur verið lagt á hilluna í bili!
Kolla er á fullu í eróbik ævintýrinu sínu. Er á stöðugum fundum og námskeiðum og byrjar svo að kenna seinna á önninni, ótrúlega stoltur af henni. Eitthvað sem hana langaði rosalega að gera, og barðist áfram við að komast að, og er hún nú kominn í ferli sem kemur henni í kennarastöðu fljótlega! Algjör gella!!
Annars eru allir tímar að byrja af mikilli hörku, verkefni, próf og fleira að hlaðast upp í komandi viku og vikum! Man ekki meira í bili!
By
Gudmundur at 1/19/2003 06:03:00 e.h.
|
 |
 |
 |
 |
 |
|