 |
 |
wlaugardagur, mars 22, 2003 |
 |
 |
 |

Ár og aldir síðan við skrifuðum síðast!!! Jájá og höfum enga afsökun. Svona næstum því enga. Við erum búin að vera á haus og svona rúmlega það. Vikan sem leið hefur fengið viðurnefnið “Dauðavikan” og ber það nafn með réttu. Próf, verkefni, vinna og ritgerðir. Var að vinna til 6 í gær, heyrði svo í mömmu sem átti afmæli í gær, Benna bróður og svo Ásgeiri félaga. Náði ekki að byrja læra fyrr en milli 8 og 9. Þurfti að skila verkefni kl 9 í morgun. Það reyndist vera það síðasta og LANG þyngsta í rekstrarhagfræðitímanum sem ég er í þessa önn. Kl 4 í nótt, prentaði ég út verkefnið tilbúið. Var dauður þegar ég kom heim í dag. Kolla er að klára geðveikina sína meðan ég rita þessi orð, 100 spurninga próf til þess að fá réttindi sem aerobic kennari. Annars er þetta alveg að verða búið, lokaprófin byrja 8 apríl.
Svo ég reifi helstu fréttir þá fékk ég fyrstu verðlaun í business keppninni sem ég tók þátt í fyrir stuttu. Mjög gaman. Síðan þá hef ég fengið margar fyrirspurnir frá áhugasömum um að koma hugmyndinni í framkvæmd. Á fund á þriðjudaginn með fólki frá skólanum vegna þessa og reyndar blaðamanni sem ætlar að fjalla um hana á mánudag. Nóg að gera í þessu.
Kolla keypti hamstur í vikunni svo nú erum við orðin þrjú í búi. Hefur hann fengið nafnið Púki. Hann á svona hamstrakúlu til að geta hlaupið um í íbúðinni og hann er eins og “Speedy Gonzalez” hérna um alla íbúð, mjög gaman að honum og hefur mikið lífgað uppá heimilið okkar. Við verðum samt að koma honum í fóstur þegar við förum til....
Ástralíu! Fórum á fund í fyrradag og “GUÐ MINN GÓÐUR”. Það er óhætt að segja að fjölskyldan í kotinu sé mjög spennt fyrir förinni. Við erum að byrja að fylla út helling af pappírum og græja og gera. Nú er ferlið að fara af stað af alvöru. Við tökum bæði fjóra áfanga þar en fáum þá metna sem fimm hér. Kerfið er víst öðruvísi þar en hér, aðeins fjórir áfangar á önn. Ætlum ekkert að vera taka neitt “of þunga” áfanga svo við getum notið Ástralíu til fullnustu. Við verðum að öllum líkindum í 15 KM fjarlægð frá Óperuhúsinu og í álíka fjarlægð frá stærsta sundlaugagarðinum í Ástralíu. Hitastigið á þessum tíma verður frá 15-35 stig. Það þýðir að við förum héðan úr 25-30 stigum í annað eins í Ástralíu. Sem sagt sumar hjá okkur frá maí – nóv.
Veðrið er nú loksins farið að skána hérna hjá okkur. Í dag fór upp í 10 gráður þrátt fyrir að það hafi verið skýjað í allan dag. Við fögnum því.
Við fórum í smá ferðalag fyrir um það bil tveim vikum. Keyrðu alla leið til Yarmouth (erum reyndar búin að komast að því að íslensk fjölskylda býr þar, sem ég er komið með emailið hjá en ennþá ekki gefið mér tíma til að senda á þau skeyti) þar sem við komust að einu skemmtilegu. Í einum vitanum þar er “Leifur Eirikson Museum”. Það var auðvitað lokað þegar við komum en óneytanlega fór þjóðerniskenndin hjá okkur af stað við þessa uppgötvun. Við þurfum að bruna þangað í sumar, þegar það opnar aftur og skoða. Komust reyndar líka að því að það eru tvær ferjur sem fara milli Yarmouth til austurstrandarinnar í USA, 1,5 klst akstur frá bryggjunni í US til Boston og taka bíla. Sem sagt hræódýr og fljótleg leið fyrir okkur til að komast til New York eða Boston á bílnum.
Félagar okkar frá Þýskalandi, Noregi og Frakklandi hittast reglulega og drekka Gluhwein, skemmtileg hefð hjá þeim. Þetta Gluhwein er blanda af rauðvíni, rommi, kryddi og ég veit ekki hvað og hvað, hitað upp og borið fram heitt eins og kakó. Alveg ágætis drykkur og rosalega gaman alltaf að hitta hópinn, mjög skemmtilegur. Gaman af því líka hvað Frakkarnir hérna eru sammála forsetanum sínum Jacques Chirac varðandi Íraksdeiluna. Hér eins og heima á Íslandi eru mikil mótmæli og forsætisráðherra í Kanada með öllu ósammála nágranna sínum í suðri, Bush. Þeir hafa reyndar eldað grátt silfur allar götur frá því Bush komst til valda, hófst á því að Jean Chretien ( forsætisráðherra Canada) lýsti opinberlega yfir stuðningi við Al Gore í forsetakosningunum í US.
Við hér í vestri höfum fylgst náið með þróun mála í Írak. Þessi stjórnarskipti í Írak gera það að verkum að þær 20 milljónir manna sem þar búa fá loks von um betri framtíð fyrir sig og sína. Framtíð án fátæktar, kúgunar og ofbeldis. Saddam Hussein er AIDS Íraks sem hefur gefið af sér hina ýmsu sjúkdóma. Fátækt, sult, ungbarnadauða, fáfræði svo ég tali nú ekki um aftökur án dómstóla, ofbeldi ofl sem hann er frægur fyrir. Þetta þekkja allir og enginn deilir um. Þetta AIDS lækna Írakar ekki sjálfir, þeir fáu huguðu sem reynt hafa að standa upp og gagnrýna stjórnarfarið hafa verið heppnir ef þeir
hafa sloppið með það eitt að vera pyntaðir. Ég skil reyndar vel fólk sem er á mót stríði og hefur mótmælt, en það verður að gera sér grein fyrir því að mótmæla valdbeitingu, er það á sama tíma að festa stjórnarfarið í Írak í sömu mynd til framtíðar. Hversu ómanneskjulegt er það? Skv. ályktun Sameinuðu þjóðanna átti Saddam að afvopnast, hafði reyndar haft meira en 10 ár til þess og nú síðast frá því í nóv. Hversu langan tíma tekur það fyrir hann að gera grein fyrir vopnum og stöðu mála, að sýna eftirlitsmönnum einlægan vilja til að afvopnast?. Telja upp vopnabúr og hvernig sprengjum og/eða efnavopnum hafi verið eytt. Varla trúir einhver að herinn hans hafi ekki hugmynd um stöðu vopnamála í nú og fyrri tíða. Síðast þegar Hans Blix gaf skýrslu sagði hann lítið sem ekkert hafa þokast áfram í að fá svör við þeim fjölda spurninga sem var ósvarað varðandi vopnaeign þeirra. Þeir sem halda að Saddam afvopnist sé honum bara gefin nægur tími lifa í ævintýraheimi. Frakkar fá bjartsýnisverðlaun ársins frá mér fyrir að vilja á sama tíma skilyrðislausa afvopnun Íraks en segja svo að þeir beiti neitunarvaldi sínu gegnum öllum tillögun innan öryggisráðsins sem gætu leitt til valdbeitingar. Ef Hussein veit að hann verður ekki beittur valdi þá auðvitað heldur hann blekkingum áfram og dregur þjóðir heimsins áfram á asnaeyrunum og afvopnast aldrei. Ef hann hefði haft einlægan vilja til að mæta kröfum alþjóðasamfélagins um að afvopnast hefði hann löngu verið búinn að því. Svo einfalt er það. Ég fagna því, vegna þessa að Bretar og Bandaríkjamenn séu tilbúnir að leggja í þessa miklu aðgerð og kostnað við þessar aðstæður. Sem frjálshyggjumaður og mikill frelsisbaráttumaður fagna ég því að íbúar íraks fá nú þær aðstæður og skilyrði til lífs og athafna sem þeir eiga, og hafa átt, skilið.
Hef mikið rætt stríðið við fólk frá mörgum heimshlutum. Veit ekki hvort það er bara upplifun mín hér eða hvort þetta sé algilt en fólk sem er með notkun valds við þessar aðstæður sem upp eru komnar virðist vera mun betur upplýstra en hinir sem eru á móti. Þeir sem eru harðastir á móti horfa sífellt á skammtíma áhrif á meðan hinir virðast horfa á langtímaáhrif. Eftir 20 eða 30 ár, þá held ég að Blair og Bush eigi eftir að heimsækja frjálst, lýðræðislegt Írak og geta séð, stoltir, þar fjölskyldur lifa við auðlegð og framfarir í upplýstu samfélagi. Samfélagi þar sem 15 ára gamlir íraskir unglingar lesa um ástandið, fyrir breytingar eins og skáldsögu, ástand sem er svo fjarri öllu sem þau geta skilið. Hver vill ekki framtíð sem þessa fyrir þjóðina?
Nóg um stríð. Við lentum í því fyrr í vikunni að þakið okkar fór að leka og það í svefnherberginu. Það er verið að fara í massífar aðgerðir við að laga þakið og koma í veg fyrir frekari skemmdir vegna þessa. Við eigum víst ekki að verða fyrir miklu óþægindum, enda bara spurning um að skipta um einhverjar þakplötur.
Heyriði...Kollan var að detta inn og hún massaði Aerobik prófið!!! Sem sagt hún er búinn að ná, með stæl, bóklega hlutanum til þess að fá kennaraleyfi. Nú er aðeins verklega eftir sem hún rúllar auðvitað upp, en þá fær hún titilinn “Fitness Instructor Specialist”. Rándýrt alveg!!! Hún hefur verið að sjá um upphitanir töluvert mikið undanfarið fyrir aðra kennara en byrjar núna á mánudaginn að kenna með öðrum. Rosalega stoltur af gellunni!!!
Ég er bæði kominn með harðsperrur í fingurna og gjörsamlega búinn að tæma mig. Ég er sífellt að reyna koma Kollu til að fara skrifa, hún var að lofa mér rétt í þessu að byrja skrifa líka. Það eru einhverjar myndir komnar inn nýjar auk þess sem Jói vinur minn hjálpaði mér að setja inn tenglasafn hér til vinstri (Takk Jói ;). Þar er að finna nýjar myndir að snúllanum hans Ásgeirs og líka blogg síða hjá einhverjum gaur í Bagdad! Internetið er snilld.
Að lokum, verið dugleg að senda okkur kveðjur með því að ýta á linkinn her fyrir neðan. Væri líka gaman að heyra skoðun ykkar stöðu máli í Íraksdeilunni og svona. Já bara klikka á linkinn hér fyrir neðan þetta er ekkert mál!!!
By
Gudmundur at 3/22/2003 02:45:00 f.h.
|
 |
 |
 |
 |
 |
|