 |
 |
wmánudagur, júlí 07, 2003 |
 |
 |
 |

Ferðasagan er í tveim hlutum, hér er fyrsti en næsti hluti er bloggið fyrir neðan. (Part 1/2)
Þegar þessi orð eru rituð sitja skötuhjúin í 36.000 feta hæð yfir Nýfundnalandi á leið til Toronto og þaðan til Halifax. Það situr rauðvínsglas á borðinu mínu í glerglasi, við höfum nýlokið við þriggja rétta máltíð (valin af matseðlinum) og Kolla liggur við hliðina á mér....ég legg áherslu á “liggur”.....munið, við erum í flugvél!! Núna höfum við lokið við fjóra og hálfa klukkustund af rúmlega sjö klukkutíma flugi á “Business Class” farrými með Air Canada og erum alveg að fíla það......meira um það síðar.
Það var skrýtið að yfirgefa föðurlandið til að fara “heim” aftur. Svona tilfinning eins og við hefðum alltaf verið heima og aldrei farið neitt. Samt var tíminn svo naumur að við náðum aðeins að gera og hitta brot af því fólki sem við hefðum kosið. “Thus is life” eins og er sagt á ensku en vegna þess að við flugum í gegnum London, tókum við þá ákvörðun að staldra þar við og spóka okkur um í þrjár nætur. Ég hafði aldrei séð borgina og því mjög spenntur.
Við vorum komin til London eitthvað um átta eða níu á fimmtudagskvöldið. Veðrið þurrt en skýjað og mjög heitt eins og svo lukkulega átti eftir að verða alla dagana okkar í borginni. Fyrsta kvöldið spókuðum við okkur um í kringum hótelið okkar, Regent Palace, sem er staðsett í hjarta borgarinnar á Piccadilly Circus. Við vorum búin að gera plan fyrir föstudaginn sem var frekar þétt og því var farið í háttinn snemma það kvöld.
Á föstudeginum fórum við og skoðuðum allt sem við höfðum sett okkur að skoða: Downingstræti þar sem Tony Blair býr, Maddam Tussaud´s safnið, Big Ben, Buckingham Palace, London School of Economics, Oxford Street og ríkislistasafnið svo ég nefni aðeins það helsta. Við Kolbrún erum sammála um það að listasafnið er það sem stendur uppúr. Verk eftir Van Gogh, Da Vinci, Michalagelo, Rembrant, Monet og fleiri snillinga eru til sýnis á safninu og féllum við kylliflöt fyrir þeim. Það voru verslaðar fimm eftirprentanir sem koma til með að fá að prýða kotið í Kanada og eiga það allar sameiginlegt að hafa heillað okkur upp úr skónum á safninu. Við ferðuðumst allan daginn með útsýnis-rútum sem keyra í kringum alla helstu túristastaðina í London. Það er hægt að hoppa úr þeim þar sem fólk vill skoða nánar og taka svo næsta vagn til að halda förinni áfram. Maddam Tussaud´s safnið var okkur einnig mjög að skapi en við tókum næstum því tvær filmur í ferðinni og er því hér með heitið að rjóminn af myndunum verður skannaður inn og settur inn á síðuna okkar. Um kvöldið var borðaður góður matur með hvítvíni og að því loknu kíkt út á lífið. Á næturlífinu hittum við par frá Íran en hann var læknir en hún í Ph.D námi. Mjög skemmtilegt fólk og áttum við alveg frábært kvöld saman. Af kvöldinu stendur einnig uppúr skemmtistaður sem við fórum á sem ber nafnið “Bar Rumba”. Frægur staður sem víða er talað um í næturklúbbaheiminum en á þessu kvöldi var Vestax DJ heimsmeistarinn að spila Hip Hop, Party tónlist og RnB. Ótrúlegur gæi sem ég get ómögulega munað hvað heitir þrátt fyrir að hafa mikið ætlað mér það um kvöldið. Ég gæti sjálfsagt fundið nafnið á netinu en þar sem “Business Class” hjá Air Canada bíður upp á flest annað en internetið ætla ég ekkert að kvarta. :) Ástæðan fyrir því ég nefni þetta er aðallega því að hann spilaði Messoforte lagið gamla Garden Party! Óhætt að segja að þjóðerniskenndir hafi farið á fullt hjá Íslendingunum og tókum við rosa sveiflu ásamt því auðvitað að deila því með heimsmeistaranum að lagið væri okkur að skapi og að þeir væru Íslendingar eins og við.
By
Gudmundur at 7/07/2003 01:11:00 f.h.
|
 |
 |
 |
 |
 |
|