wföstudagur, júlí 18, 2003


Kominn fimmtudagur og önnur vikan okkar í skólanum að verða búinn. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt enda crazy að gera í skólanum hjá okkur báðum. Ég man varla eftir að hafa lært svona mikið (sem er auðvitað lygi) frá því ég kom...en amk...þá er bilað að gera og ekki orð um það meir!

Veðrið búið að vera lala undanfarið svolítið mikið rignt en verið ofboðslega hlýtt. Það hefur eiginlega alltaf verið í kringum 30 gráðurnar. Lentum í skemmtilegu í gær. Þá vorum við úti á svölum að læra í sólinni en þá sáum við dádýr í garðinum hjá okkur! Ekkert smá magnað að sjá þau svona bara dunda sér í bakgarðinum okkar.

Annars er voðalega lítið að frétta af okkur nema bara endalaust nám. Við erum að láta okkur dreyma um að heimsækja Georgía í US (þar sem Kolla var í námi) eftir sumarönnina, 13. ágúst. Þá höfum við 17 daga þar til foreldrar Kollu koma í heimsókn. Við erum svona að velta því fyrir okkur að keyra niður til Georgia og vera þar í nokkrar nætur en kíkja svo til Florida á jeppanum. Taka tjald með okkur eða hreinlega sofa bara í bílnum. Með því að leggja aftursætin niður erum við með rosa space fyrir okkur...en allt ennþá í gerjun svo meira um það síðar!

Afmælisgjöfin mín frá Kollu mætti í hús í gær. Það er eitt það magnaðasta tæki sem ég hef á ævi minni eignast . Snilld til að glósa með svo ég tali nú ekki um ef maður er að lesa og vantar þýðingu á einhverju orði þá er hægt að skanna það inn á sekúndu og fá þýðinguna! Ef þú ert karlmaður þá verður þú að kíkja á linkinn hér að ofan og skoða græjuna...get ekki gefið henni betri meðmæli en ég geri!

Erum annars búin að vera laga íbúðina svona aðeins. Versluðum bókahillur, erum búin að vera hengja myndir á veggina og græja og gera til að koma kotinu í huggulegra horf. Þar sem við verðum hér þar til amk júní á næsta ári höfum við sett okkur að gera hana svolítið notalega. (Ætlum að taka myndir hér heima MJÖG fljótlega til að setja inn en það hefur breyst töluvert frá síðustu myndum).

Það stóð nú reyndar alltaf til að hafa skrifin hér svolítið höll undir áhugamálin mín. Hagfræði, viðskipti, stjórnmál ofl. Það hefur eitthvað farið fyrir ofan garð og neðan. Langar til að minnast á fall Íslands á frelsisvísitölu-lista Fraser stofnunarinnar í Kanada, úr 11. sæti í það 13. Mjög leiðinlegt fyrir frjálshyggjufólk að sjá þetta gerast en á sama tíma fagna ég góðu gengis Íslands á Human Development Index Sameinuðu Þjóðanna en Ísland er nú í öðru sæti fyrir þá sem ekki vita (báðar vísitölur koma út einu sinni á ári). Ótrúlega gaman að fylgjast með því hvað Ísland er að blómstra og sérstaklega gaman að fólk erlendis er farið að taka eftir því. Það veit ekkert um land og þjóð nema að við lifum hér við alsnægtir og velmegun! Sem hagfræðinemi er þetta góð innspýting fyrir þjóðerniskenndina!

Annars var seðlabankinn í Kanada að lækka stýrivextina sína um 0,25% núna í vikunni í fyrsta skipti eftir að hafa hækkað þá nokkrum sinnum á undanförnum mánuðum. Öfugt við það sem ESB og US hefur verið að gera en þar höfum við verið að fylgjast með miklum vaxtalækkunum enda hagkerfin þar í mikilli lægð. Ástæðan fyrir því að vextir lækkuðu hér nú er eflaust SARS, sterkur CAD dollar og Mad Cow (Sem ég man ekki hvað heitir á íslensku núna) veikin sem blossaði hér upp nýlega en það hefur virkilega komið niður á kúabændum og útflutningi á nautakjöti. Störfum hefur samt verið að fjölga hér í Kanada en verðbólguþrýstingur minnkað það mikið vegna áfallanna undanfarið að seðlabankinn hefur tekið þá ákvörðun að lækka vexti áður en hagkerfið fer að líða fyrir. Bara gott mál en Canada er í 8. sæti á HDI listanum nýja en hoppaði upp um eitt sæti á frelsisvísitölu-lista Fraser stofnunarinnar. Ég er reyndar orðinn tengill Fraser stofnunarinnar í skólanum mínum (alltaf verið að pota sér áfram) er að koma boðskapnum þeirra á framfæri í skólanum en þessi stofnum er með eindæmum bæði áhugaverð og einstök í heiminum. Meira um það seinna.

Á næstunni ætla ég að blanda bloggið okkar svolítið heimsmálunum og þeim viðhorfum og skoðununum sem eru ríkjandi hér í kotinu. Fyrir þá sem hafa ekki áhuga verður það samt langt frá því dominerandi svo ekki ekki hætta að kíkja í heimsókn!

Fleira ekki í bili!


By Gudmundur at
7/18/2003 01:13:00 f.h.

Spjallaðu við mig: Skrifa ummæli