 |
 |
wmánudagur, júlí 07, 2003 |
 |
 |
 |

PART 2/2
Laugardagurinn var svolítið þungur af stað. Á föstudeginum vorum við líka í svo mikilli keyrslu sem endaði á smá djammi að það hefði verið furðulegt hefðum við ekki verið hálf ryðguð og þreytt. Við sváfum vel út og fórum svo að rölta, kíktum á Oxford stræti ásamt því að skoða okkur um í kring um hótelið. Borðuðum alveg fyrsta flokks sushi um kvöldið ásamt því að fara að sjá “Sexual Perversity in Chicago”, leikrit með Matthew Perry sem eins og allir vita leikur Chandler í Friends. Einnig leika í því Minnie Driver sem er einnig stórt nafn í bransanum, Hank Azaria sem hefur farið með gestahlutverk í Friends (lék kærasta Pheobe sem fór til Minsk í Rússlandi) og hann lék í myndinni Birdcage og svo var einhver önnur leikkona sem ég man ekki hvað heitir en hún á víst að vera eitthvað merkileg líka. Rosalega skemmtilegt leikrit, mun betra en við höfðum gert okkur í hugalund og ótrúlega gaman að sjá hetjuna af skjánum, þ.e.a.s. Chandler (við skötuhjúin erum bæði miklir Friends aðdáendur) í návígi. Eftir leikritið var rölt í bænum til miðnættis en þá var London hluta ferðarinnar lokið eins og í ástarsögu. Það er nefnilega goðsögn í London sem segir að ef par tjáir ást sína á hvort öðru á miðnætti undir ástarguðinum Eros, sem er í styttuformi á miðjum Piccadilly Circus, á ástin að lifa að eilífu.Þetta sem sagt gerðum við en þar með var öðrum frábærum degi í London lokið en langur og strembin dagur framundan, nefnilega ferðalagið til Halifax.
Við vorum vöknuð eldsnemma á sunnudagsmorguninn til að klára síðustu atriðin sem klára þurfti fyrir ferðalagið. Smá pása, við vorum að fá ís og heitar súkkulaðibitakökur! Þessi “Business Class” á mína fyllstu virðingu! Jæja kominn aftur. Morgunninn og ferðin út á flugvöll voru svo sem ekki merkileg nema hvað þegar við komum og ætluðum að tékka okkur inn nálgaðist okkur maður frá Air Canada. Við Kolbrún höfum haft þann háttinn á að mæta mjög snemma alltaf út á flugvöll þegar við ferðumst til að eiga tíma uppá að hlaupa ef eitthvað óvænt kemur uppá líkt og gerðist í þetta skiptið! Við áttum flug kl 10:10 til Toronto en voru svo snemma í því að við gátum náð vél sem fór kl 8:20. Það hefur sjálfsagt verið yfirbókað í vélina okkar kl 10:10 en maðurinn bauð okkur að fara með fyrri vélinni en flýta einnig tengifluginu okkar frá Toronto til Halifax. Með þessu værum við kominn fyrr heim svo boðið var þegið með þökkum. 10 mín síðar komust við að því að Kolla var með 14 kg í yfirvigt sem við gátum ekki fært á milli í töskuna okkar og ekki sett í handfarangurinn okkar auk þess sem ekki er boðið að borga fyrir yfirvigt! Þessi sami maður leyfði okkur að fara frítt með alla þessa yfirvigt (sem annars leit út fyrir að við hefðum þurft að senda okkur í pósti!!) auk þess sem rúmlega sjö klukkustunda flugið til Toronto var á “Business Class”! Þessi maður var á staðnum sleginn í dýrlingatölu af skötuhjúunum auk þess að vera ævilangt kominn á jólakortalistann okkar! Sætin okkar er hægt að leggja alveg niður, alveg eins og lazy boy! Við höfum sex eða sjö bíómyndir sem við getum valið á milli, vínlista, matseðil, allt ókeypis sem við pöntum, kampavín fyrir flugtak, fáum ávexti og snakk eftir óskum og ég veit ekki hvað og hvað og hvað og hvað! Þetta er alveg ótrúlegur lúxus og skilur maður vel af hverju fólk er að borga þessi háu verð fyrir þessa þjónustu. Enginn troðningur, engin læti, nóg pláss og tilfinningin í raun eins og við séum út af fyrir okkur ásamt því að hafa einn þjón á hverja fimm farþega hérna á “Business Class” sem svoleiðis stjana við okkur. Rosalega kann ég vel við mig hérna og að fá dúk á borðið fyrir mat og...smá pása. Þjónninn var að koma til að sýna mér rauðvín sem hann mælir svo með og var að sýna mér flöskuna eins og á veitingastað. Ég fell auðvitað fyrir því og fæ “gler-rauðvínslasið” mitt fyllt ásamt heitum hnetum! Svona á maður að ferðast! Jæja en aftur að ferðalaginu. Við eigum nú rúmlega tvær klukkustundir eftir þar til við lendum í Toronto en þar er tveggja tíma pása og svo er það Halifax og heim.
Ótrúlega skemmtilegur endir á frábærri ferð í alla staði. Spekingurinn breski Dr. Samual Johnson sagði á 19 öld um borgina: “You find no man, at all intellectual, who is willing to leave London. No, Sir, when a man is tired of London, he is tired of life; for there is in London all that life can afford.”
Ég er ekki frá því að það sé töluverður sannleikur í þessum orðum þó svo ég vilji kannski ekki taka eins djúpt í árinni. Við Kolbrún erum sammála um það að þetta ferðalag hafi verið eins vel heppnað og hugsast gat. Svo vel að manni fannst maður ekkert eiga það skilið að fá að ferðast til baka á viðskiptafarrými. London er magnaðasta borg sem ég hef sótt heim. Mannlífið og menningin er ólýsanleg. Ég féll kylliflatur. Kolla hefur heimsótt borgina áður en var heilluð alveg eins og ég. Þetta er orðinn svo mikil langloka hjá mér að ég ætla fara láta þetta duga. Jaws er líka að byrja í sjónvarpinu (sem b.t.w. er í stólnum hjá mér) og ég þarf að fara halda áfram að láta þessa þjóna stjana við mig!
Um leið og við setjum myndirnar inn látum við vita hér á blogginu.
By
Gudmundur at 7/07/2003 01:10:00 f.h.
|
 |
 |
 |
 |
 |
|