wmánudagur, maí 24, 2004


Windows vs Linux.

Ég hef lent nokkrum sinnum í rökræðum, við félaga hér í skólanum, um það hvort það verði Linux eða Windows sem vinni sem stýrikerfi komandi kynslóða. Að rökræða svona mál við tölvufræðinema er nú yfirleitt ekki erfitt þar sem rökin ná yfirleitt ekki lengra en einhver “multi-thread” tækni sem er betri en hjá Microsoft í dag. Þeir gleyma því yfirleitt að fyrirtæki eins og Microsoft er mjög fljótt að tileinka sér nýjungar á markaðinum og að Windows á aldrei eftir að staðna. Samkeppnin sér til þess að allt sem er "worth-while" að setja inn í Windows, sem aðrir bjóða upp á í t.d. Linux, á Microsoft eftir að kópera og setja inn í Windows. Kók á alltaf aftir að vera með Sumarleik í gangi ef Pepsí er með sumarleik, annars tapar Kók viðskiptum.

Mín skoðun hefur verið að ástæða þess að Linux geti ekki unnið er hægt að líkja við “Harmleik Sameignarinnar”, eins og Garrett Hardin kallaði það. Milton Friedman myndi orðað það svo: “Það sem allir eiga, á enginn og því enginn til að sjá um það.”

Tökum dæmi: Linux vinnur samkeppnina og fyrirtæki jafnt sem einstaklingar fara að nota Linux í stað Windows. Vírus eða galli kemur upp í Linux sem hefur virkileg áhrif á kerfið, annað hvort virkni eða öryggi. Segjum sem svo að fyrir flesta einstaklinga þá sé þetta ekki mikið atriði en hins vegar fyrir ákveðna tegund af fyrirtækjum skipti þetta sköpum. Fæst fyrirtæki hafa forritara á launaskrá og ennþá færri því minni sem fyrirtækin eru. Þar sem það er engin sem “á” Linux, er engin sem ber ábyrgð á þessari villu. Hvað geta fyrirtækin gert? Ekkert nema reynt að leysa vandan sjálf með tilheyrandi tímatapi, kostnaði og fyrirhöfn.

Ef sama mál kemur upp í Windows væri Microsoft tilneytt til að leysa vandan hið fyrsta. Microsoft “á” og selur Windows og hefur því alla sína velgengni í framtíðinni í húfi ef villur eru ekki leystar strax. M.ö.o. Windows er verðlaus vara ef henni er ekki stanslaust haldið við, bætt og breytt.

Það er því mjög augljóst ef málið er skoðað á þennan hátt að Linux eigi ekki séns í að verða ofan á. Eða hvað?

Menntafólk sem skrifar lærðar ritgerðir í fagtímarit fær sjaldnast borgað fyrir það. Yfirleitt keppast prófessorar samt við að fá eins margar af sýnum rannsóknum birtar því það hjálpar starfsferlinum og er yfirleitt grundvöllur þess að þeir fá fastráðningu, sem dæmi, í háskólum. Þetta skiptir máli því það er í raun hægt að horfa á Linux sem fagtímarit. Þeir sem leggja til í grunn-kóða kerfisins fá nafn sitt inn í kerfið sem er ekki ósvipuð viðurkenning og að fá rannsókn birta. Hér er því kominn mikill hvati fyrir prófessora, og aðra, að kapp kosta við að leysa vandamál sem koma upp í kerfinu, sjálfum sér til framdráttar. Hér er því kominn “Ósýnileg hönd” sem ég er ekki frá því að gæti leyst “Harmleik Sameignarinnar”.

Það er því ekki svo augljóst hvort kerfið verður ofan á þó svo ég myndi veðja á Microsoft. Prófessorar eru yfirleitt að kenna og/eða í öðrum störfum svo viðbragðstími þeirra verður aldrei sá hinn sami og hjá risafyrirtæki sem hefur allt sitt undir að vörur þeirra séu villulausar og þjónustaðar um leið og eitthvað bjátar á. Hver er þín skoðun? 055812g@acadiau.ca


By Gudmundur at
5/24/2004 05:32:00 e.h.

Spjallaðu við mig: Skrifa ummæli