wþriðjudagur, nóvember 02, 2004


Af andríki.is:

"Það sem Reagan skildi, en hvorki Bush, Kerry né Bloom virðast skilja er sá vandi sem F.A. Hayek benti svo margoft á, að þekkingin á þörfum einstaklinga og fyrirtækja er svo dreifð um allan markaðinn og svo ört breytileg að ríkið getur aldrei safnað henni saman og þannig komið í stað markaðsins."

Merkilegt hvernig rökræðurnar hafa verið undanfarið á Íslandi (og víðar) um frambjóðendurna tvo, Bush og Kerry. Mér finnst þær kristallast í Bush vs Kerry spurningu í DV á dögunum þar sem einhver gella úr Gus Gus og Haukur Örn frjálshyggjumaður voru spurð um sína afstöðu.

Haukur Örn, eins og geðþekkum manni sæmir, færði rök fyrir því af hverju Bush væri skárri kostur á meðan röksemdafærsla stúlkunnar var byggð á því hversu mikið fífl og fáviti Bush væri en því bæri að kjósa Kerry.

Þetta er svolítið magnað en ég vitna aftur í Andriki.is:

“Stóryrðin og fúkyrðaflaumurinn um einn frambjóðandann verðskulda að þeim sé haldið til haga til minningar um alla þá sem áður töluðu með yfirlæti um skítkast og neikvæðan áróður í stjórnmálum. Það merkilegasta við þessar kosningar er þó að þeim, sem hvað mestar áhyggjur hafa af því að bandarísk menning, fyrirtæki og framleiðsla flæði yfir heiminn og glepji huga fólks, hefur með æsingnum og eigin geðshræringu á undanförnum misserum tekist að sannfæra heimsbyggðina um að bandarísk stjórnmál séu þau áhugaverðustu og mest spennandi í víðri veröld. Mönnum hefur verið þakkað að minna tilefni.”

Nú þekki ég marga mæta vinstrisinnaða einstaklinga sem byggja skoðanir sínar gagnvart Bush á traustum rökum en flestir leyfi ég mér að fullyrða gera það hins vegar ekki og apa upp vitleysu eftir háðfuglum eins og Michael Moore.

Í þessari orðahríð vinstrisinna finnst mér eftirfarandi eiga vel við marga gaparana:

Hávært tal er heimskra rök.
Hæst í tómu bylur.
Oft er viss í sinni sök
sá er ekkert skilur.
(höf. Örn Arnarsson)



By Gudmundur at
11/02/2004 01:25:00 e.h.