wsunnudagur, janúar 16, 2005


ESB umræða og myndin The Village

Það hefur sjálfsagt farið fram hjá fáum sú umræða sem hefur farið af stað eftir skýrslu Ragnars Árnasonar um Evrópusambandið og Ísland. Það sem var fréttnæmt í skýrslu Ragnars var að Íslendingar ættu að fara íhuga það hvort það væri farsælla fyrir Ísland að segja upp EES samningnum. Ólafur Teitur benti á í skemmtilegri grein fyrir helgi hversu mikið sumir fjölmiðlar hafa í fyrsta lagi breytt orðum Ragnars og í örðu lagi hreinlega gert aukaatriði að aðalatriðunum. Þetta tíundaði Ólafur Teitur í Sunnudagsþættinum í dag.

Það sem er merkilegt við niðurstöðu Ragnars er að hann, fyrstur manna, kemur fram og leggur til að EES samningurinn verði skoðaður með það í huga að okkur væri kannski betur borgið án hans, svokölluð ,,svissnesk-lausn”. Yfirlýsingar hans komu Eiríki Bergmanni og fleiri Evrópusinnum af stað með harða gagnrýni á niðurstöðu hans sem upplýst fólk tekur auðvitað með fyrirvara. Upplýst fólk veit nefnilega að Eiríkur Bergmann horfir girndaraugum á skriffinnskustörf innan ESB ef Ísland misstigi sig og hrasaði inn í reglugerðabáknið. Hvað um það. Umræðan nú í fjölmiðlum er á þann veg að ,,svissneska lausnin” sé sjálfsmorð sem leiði það af sér að íslensk fyrirtæki með starfsemi erlendis yrðu að snúa aftur heim og skrúfað yrði fyrir alla framþróun viðskiptalífsins þegar kemur að Evrópu.

Þetta hafa gapararnir rokið fram með, eins og Ólafur Teitur talaði um í Sunnudagsþættinum. ,,Svissneska lausnin” hefur verið könnuð og hún myndi alls ekki moka undan efnahagslífinu eins og segir í skýrslu Alþjóðamálastofu Háskólans (júní 2003): ,,Sama hver kosturinn verður fyrir valinu, þá er lítil ástæða til að ætla að af því hljótist miklar kollsteypur. Það er til dæmis ekki ástæða til að gera ráð fyrir öðru en áhrifin af þátttöku Íslands í innri markaði ESB á íslenskt efnahagslíf séu tiltölulega óháð því hvaða form á stjórnmálalegum tengslum landsins við Evrópu verður fyrir valinu. Reikna má með að réttindi og skuldbindingar íslenskra fyrirtækja muni í stórum dráttum verða svipuð þó vissulega skipti það kerfi sem EES samstarfið býður upp á til úrlausnar ágreiningsmálum miklu máli í samanburði við ,,svissnesku lausnina” “ (bls 82)

Ísland er auðvitað svo lítið að það hefur ekkert í stórveldi eins og Evrópusambandið. Ef þessir aðilar tveir kæmu saman liggur í augum uppi að 450 milljón manna markaður hefði meira vægi í samningaviðræðum en Ísland með okkar 0,28 milljón manns. Það sem hins vegar er heppilegt við að vera Ísland þegar samið er við ESB er að fyrirtækin okkar eru svo lítil að þau ógna hagsmunum þrýstihópa innan sambandsins mjög takmarkað. Með öðrum orðum er mun líklegra að við fáum góða samninga við stórt ríkjasamband eins og ESB því við skiptum það svo rosalega litlu máli ergo við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af því að valtað yrði yfir okkur.

- - -

Ég var að horfa á bestu kvikmynd sem ég hef séð í langan tíma í kvöld, hún heitir The Village. Ef þú ætlar þér að sjá hana hættu þá að lesa núna! Boðskapur myndarinnar er sá sami og í frábærri grein sem ég þýddi ,,Sagan um Týnda dal” sem er inni í Writings.

Háskólaprófessor safnar saman fólki sem á brotna fortíð vegna ástvinamissi og annarra áfalla sem dynja á borgara nútímasamfélagsins (að þeirra sögn). Þetta fólk flytur með háskólaprófessornum á risa stórt land umkringt miklum skógi. Þar stofnar hópurinn samfélag byggt á samyrkjuskipulagi. Ég ætla ekki út í details en þau einangra sig algjörlega frá umheiminum. Falleg hugsjón auðvitað, að einstaklingarnir fá eins og þeir þurfa og leggja af mörkum eins og þeir geta. Það voru hins vegar ekki hagfræðileg áhrif sameignarformsins sem varð samfélaginu að hruni per se heldur einangrunin.

Þegar ástvinir fara að deyja úr litlum auð-læknanlegum sjúkdómum breytist fallega hugsjónin. Þar sem svona tilraunir hafa svo verið reyndar í raun hafa hungurmorð einnig verið sem þykkt ský fyrir fagurljóma hugsjónarinnar. Hópurinn flúði nútímasamfélagið til þess að forðast allt það vonda sem þar er að finna, aðeins til að uppgötva að ljótleikinn á ekki rót sína í samfélaginu. Ljótleiki er nefnilega bundinn við einstaklinganna sem mynda samfélagið, ekki öfugt.

Lausnarorðið er frelsi og einstaklingshyggja, ekki ánauð og sameignarstefna.


By Gudmundur at
1/16/2005 08:01:00 e.h.

Spjallaðu við mig: Skrifa ummæli