wföstudagur, janúar 14, 2005


Esjan, Fréttablaðið að drepa mig, hamfarirnar og Orri í Silfrinu

Halldór Laxness sagði einhvern tímann ,,Enginn ann Íslandi meir en Íslendingarnir í Danmörku.” Þó ég hafi búið hinum megin við Atlantshafið hef ég svo sannarlega fundið fyrir sömu kennd sem hefur birst á margan og mismunandi hátt. Í dag, líkt og svo oft eftir heimkomuna hef ég dáðst að fjallinu okkar sem hefur snævi þakið verið svo glæsilegt í vetrarsólinni. Esjan er mögnuð og í dag setti ég mér það markmið að klífa hana við allra fyrsta tækifæri og berja litla sjávarþorpið okkar, Reykjavík, augum hátt uppi úr fjarska.

- - -

Fréttablaðið, ásamt símafyrirtækjunum báðum, er komið á listann minn yfir þau fyrirtæki sem eru með óvirkustu þjónustudeildir sem ég hef átt orðaskipti við. Ég hef, án alls gyss, hringt átta sinnum og kvartað yfir því að fá ekki Fréttablaðið mitt á morgnanna. Það er ekkert sem pirrar mig meira en að þurfa að horfa á Ísland í bítið yfir morgunmatnum, með fullri virðingu fyrir þeim sem stjórna þeim þætti. Áttunda skiptið var í morgun en það var keyrt til mín kl 15 í dag. Það er sami aðili sem hefur borið út blaðið hér í meira en hálft ár. Hann hefur fengið átta áminningar frá þjónustudeild blaðsins en samt heldur hann áfram að sniðganga kotið. Hvernig er hægt að gera það áfram eftir átta áminningar á rúmlega einum mánuði? Ef blaðið væri ekki frítt væri ég löngu búinn að færa viðskipti mín eitthvað annað. Ef ég þyrfti að borga fyrir það efast ég reyndar um það að ég þyrfti að kvarta átta sinnum.

- - -

Mér leiðist mjög að komast ekki yfir tímaritin sem koma til mín í hverri viku eða mánuði. Þau sem ég reyni hins vegar að komast yfir eru The Economics og Viðskiptablaðið. Öðrum áskriftum ætla ég að segja upp og hef reyndar ekki ennþá endurnýjað áskriftina mína að The Economist sem rann út um áramótin. Nýlega fjallaði það frábæra blað um hversu miklar fjárhæðir það væru sem ríkistjórnir og þegnar heimsins eru að veita þeim löndum sem lentu í náttúruhamförunum undir lok desember á síðasta ári. Fjárhæðirnar eru í sannleika sagt það háar að margir eru farnir að hafa áhyggjur af því að þangað séu að flæða of miklir peningar á of stuttum tíma. M.ö.o. að miklu fjármagni verði sóað þar sem meiri fjármunir séu að fara þangað en sé hægt að færa í nyt á skynsaman hátt. Ég hef svo sem enga sérstaka skoðun á þessu máli að öðru leyti en því hversu vel atburðirnir sýna hvað alþjóðavæðingin er kraftmikil og jákvætt afl. Við, afdalaeyja í norðri, fengum fregnir af atburðunum strax. Á Íslandi, líkt og í eflaust yfir 100 löndum er verið að safna fjármunum fyrir fólkið sem varð fyrir þessum hörmungum. Á morgun verða sjónvarpsstöðvar og útvarpsstöðvar á Íslandi samtengdar í sameiginlegu átaki til þess að safna fjármunum. Þetta finnst mér frábært og sýna hvað einkaframtakið er kraftmikið á sama tíma og maður spyr sig hvort ríkið eigi eitthvað að vera senda peninga í okkar nafni án þess að spyrja okkur. Erum við ekki full fær um að leggja til fjármagn sjálf?

Hliðstætt við offlæði fjármagns til áfallasvæðanna er AIDS verkefni sem Suður-Afríka hefur farið af stað með. Þegar ég dvaldist þar síðasta sumar fékk ég fregnir af miklum fjármunum sem höfðu farið til spillis í mörgum verkefnum til þess að sporna við þessari plágu. Aðgerðirnar féllu yfirleitt um sjálfar sig því það vantaði allan infrastrúktúr, fólk og eftirlit sem var forsenda árangurs. Miklum fjármunum var því varið í verkefni sem björguðu mjög fáum lífum. Ef slíkt hið sama gerist nú í Asíu er það ekki mikilvægt því við erum að kosta of miklu við að bjarga þar hverju mannslífi heldur vegna annarra mannslífa, á öðrum stöðum, sem ekki verður bjargað því fjármunum var varið óskynsamlega í hjálparstarf í Asíu.

- - -

Að lokum langar mig að benda á frábært Silfur Egils síðasta sunnudag þar sem Friðbjörn Orri kom fram fyrir hönd Frjálshyggjufélagsins. Fyrir þá sem misstu af þættinum er hægt að sjá hann hér:

Quote úr þættinum frá Orra:,,Barnabætur? Ég veit ekki betur en börn séu góð og skil því ekki af hverju það þarf að bæta fólki það eitthvað upp að eignast þau.”


By Gudmundur at
1/14/2005 08:58:00 f.h.

Spjallaðu við mig: Skrifa ummæli