wföstudagur, janúar 14, 2005


Greinasafn uppfært og Landbúnaður

Ég var að uppfæra greinasafnið í ,,Writings”. Þangað var ég að setja inn greinar sem ég hef skrifað undanfarið í Ósýnilegu hönd Frjálshyggjufélagins.

- - -

Stutt um íslenska sauðfjárbændur. Í hvert sinn sem stéttin lendir í óförum hleypur ríkisvaldið af stað og virðist sífellt halda að með auknum afskiptum, og styrkjum, geti það komið stéttinni í bjargálnir. Á sama tíma hafa laun sauðfjárbænda farið lækkandi og voru árið 2002 að meðaltali 978.000kr á ári. Til gamans má geta að ef heildargreiðsla ríkisjóðs til þeirra (2,5 milljarðar á ári) færu í að greiða sauðfjárbændum laun fengi hver þeirra um 1,1 milljón á ári sem er hærra en meðallaunin þeirra!


Þrátt fyrir alla þessa milljarða sem ríkið dælir í landbúnaðinn á Íslandi eru bændur ein fátækasta stétt landsins, borgararnir þurfa að borga 1 milljarð á mánuði til að styrkja þá og neyðast til að borga mun meira fyrir matvörur vegna tollamúra. Hverjum er greiði gerður með þessu kerfi?

Þau rök að án landbúnaðarkerfisins leggist byggðin á landsbyggðinni af er einnig hæpin. Geirum innan landbúnaðarins er í fyrsta lagi mjög mismunað varðandi styrki. Sumir geirar landbúnaðarins fá mikið, aðrir lítið sem ekkert. Aðrar atvinnugreinar á landsbyggðinni fá auðvitað ekkert. Ennfremur þegar rýnt er í fjölda Íslendinga á aldrinum 18-65 ára sem búa á landsbyggðinni, sem eru 70680, og þá staðreynd að aðeins 3650 af þeim starfa í landbúnaði, sem gerir um 5,16%, sést hversu mikil mismunun felst í þessari byggðarstefnu. 5% af landsbyggðinni nýtur góðs af milljarðinum sem við kostum til á mánuði.

Ef þessu rugli yrði hætt væri hægt að lækka skatta fjölskyldna á Íslandi um rúmlega 12.000kr á mánuði sem er sýnilegur, sá ósýnilegi (í byrjun amk) væri smá saman aukið matvöruúrval á mun betri verðum en Íslendingar hafa áður fengið að njóta hér á fróni.



By Gudmundur at
1/14/2005 01:43:00 f.h.

Spjallaðu við mig: Skrifa ummæli