wsunnudagur, febrúar 06, 2005


Alltaf hræddur


Það er ýmislegt sem maður uppgötvar þegar maður kemur heim eftir að hafa dvalið lengi í vanþróuðu ríki, líkt og ég gerði í nokkra mánuði í Suður Afríku. Í Suður Afríku var maður alltaf hræddur sem gerist aldrei á Íslandi. Í Mowbray (úthverfi Cape Town) þar sem ég bjó var sem dæmi stór hættulegt að fara út eftir kl 6 á kvöldin. Drugistarnir voru þá á ferli og fólki rænt, það drepið og nauðgað eins og ekkert væri sjálfsagðara en lögreglan reyndi yfirleitt að flýta sér hægt þegar hún var kölluð til svo hún þyrfti ekki að mæta afbrotamönnunum.

Það var því eins og maður væri í fangelsi á kvöldin, lítið að gera nema lesa eða horfa á sjónvarpið. Fjölskyldan sem ég bjó hjá átti 2 bíla sem báðir voru bókstaflega að hrynja, ótryggðir og höfðu aldrei verið skoðaðir. Þá var hægt að leigja fyrir 500kr á dag en það var eina leiðin til þess að fara eitthvað á kvöldin. Samt var ekki hægt að fara hvert sem var og stórhættulegt að leggja bílnum langt frá þeim stað sem maður ætlaði á. Helst að leggja beint fyrir utan og hlaupa svo inn þangað sem maður ætlaði.

Að vera á bíl fylgdi samt önnur hætta en sú var að ef bíllinn bilaði voru líkurnar mjög miklar að maður yrði rændur. Það var sem dæmi átak þegar ég dvaldi í Suður Afríku gegn morðum og ránum á hraðbrautinni í þeim tilfellum sem bílar fólks biluðu. Þá stoppuðu ógæfumennirnir, rændu fólk og lömdu oft til dauða og héldu svo áfram. Ekki bara að nóttu til heldur einnig á meðan sólin skein. Öryggið var því langt frá því að vera tryggt með því að vera á bíl.

Ungur Breti sem ég spjallaði örlítið við þegar ég fór í hákarlaköfun lenti t.d. í því að vera stunginn af 12-13 ára krökkum sem voru að betla pening af þeim. Þetta gerðist á göngugötu þar sem mikið var um bari og skemmtistaði sem við fórum oft á. Maður var þess vegna alltaf hræddur og alltaf að líta um öxl en leið því aldrei eins og maður væri alveg öruggur sem er hræðileg tilfinning.

Það er brandari í Suður Afríku sem hljóðar svo: ,,Hvernig þekkirðu Suður Afríku búa í London? Hann er alltaf að líta um öxl" Brandarinn var fyndin fyrsta daginn sem ég kom til Suður Afríku en svo fór hann sífellt að hljóma meira eins og staðreynd.

Að lokum til að komast í herbergið sem ég bjó í þurfti ég að fara í gegnum 3 læstar dyr + eitt hlið. Það mátti alltaf sjá á hversu háir steinveggirnir voru í kringum hús í Cape Town hversu efnað fólkið sem bjó þar var en á öllum húsum stóð: Armed Response team. Það eru einkareknar öryggissveitir sem skjóta víst áður en þeir spyrja þegar þeir eru kallaðir út!!! Ég kynntist engum sem höfðu ekki lent í alvarlegum ránum á meðan ég dvaldi þarna og flestir þekktu einnig til fjölskyldna sem höfðu misst ástvini vegna morða. Ótrúlegur heimur alveg.

Mesta morðtíðni landa heims. Morð per 100.000 íbúa:

(The Economist 8. janúr 2005 "Fewer guns please")



By Gudmundur at
2/06/2005 11:45:00 f.h.

Spjallaðu við mig: Skrifa ummæli