wföstudagur, febrúar 04, 2005


Mandela með óráði, brotið á Skjá einum og nýtt frjálshyggjublogg

Heyrði í dag Nelson Mandela tala fyrir því að fella niður skuldir og dæla meiri peningum til þriðjaheimslanda. Þetta sagði gamli maðurinn vera forsendu fyrir framförum í þriðja heiminum. Í fyrsta lagi minnist ég orða Péturs Lávarðs þegar hann sagði: ,,Þróun án þróunaraðstoðar, þróunaraðstoð án þróunar.” Það er nefnilega þannig að þau ríki sem hafa fengið mest af þróunaraðstoð hafa ekkert verið að þróast. Önnur lönd sem opnað hafa fyrir frjáls viðskipti hafa náð undraverðum árangri líkt og tígrisdýrin fjögur í Asíu. Það þarf því ekki meiri peninga til þessara landa heldur miklar breytingar á infrastúktur og lagakerfi til þess að leysa úr læðingi kraft einkaframtaksins sem er forsenda framfara.

Í öðru lagi, ef skuldir þróunarlanda eru feldar niður hvers konar fordæmi gefur það? Að spilltir stjórnmálamenn, oft einræðisherrar og harðstjórar, þurfi ekki að taka afleiðingum gjörða sinna? Margir myndu svara því til að almennir borgarar eru að líða fyrir athafnir stjórnmálamannanna og þeirra vegna ætti því að fella niður þessar skuldir.

Setjum þetta í annað samhengi. Þú ferð hrottalega yfir á debet reikningnum þínum og eftir árið ertu í stórum mínus sem þú getur ekki borgað. Ef bankinn þinn myndi fella niður skuldina myndir þú hiklaust gera sama hlutinn aftur á næsta ári. Auðvitað, ég myndi sjálfur gera það. Hér er kjarninn. Þessir stjórnmálamenn gera það einnig og halda áfram óskynsömu bruðli, yfirleitt í eigin þágu eins og Pétur Lávarður benti oft á, ef þeir þurfa aldrei að taka afleiðingum gjörða sinna. Pétur Lávarður færði einnig sterk rök fyrir því að þróunaraðstoð til þróunarlanda væri: Þróunaraðstoð frá fátækum í fyrsta heiminum til ríkra í þriðja heiminum. Pétur átti við að þróunaraðstoð færi yfirleitt til spilltra stjórnmálamanna sem eyddu fénu í sig og sína en almúgurinn mætti algjörum afgangi. Pínum stjórnmálamenn þessara landa til þess að auka atvinnufrelsi, og hættum að halda þeim uppi, sem hefur verið forsenda þróunnar í ÖLLUM löndum heimsins sem hafa þróast.

- - - -

Það er ótrúlegt að Skjá einum sé bannað að senda út þá leiki enska boltans sem eru án texta eða íslenskrar lýsingar. Ef þetta er bannað, þarf þá ekki að taka fyrir allar þessar erlendu stöðvar sem Síminn og Stöð 2 endurvarpa?

Í öðru lagi, hafa ekki Stöð 2 og RÚV sent oft fréttir BBC og CNN út beint utan dagskrár án þess að nokkur texti né lýsing fylgi? Ég man eftir slíkum dæmum þegar ráðist var inn í Írak og Afganistan.

Í þriðja lagi, íslenskukunnátta þeirra sem hafa verið að lýsa leikjum er ekki til þess fallinn að vernda íslenskt mál. Muna ekki allir eftir Bubba B.O.B.A. bomba.

Í fjórða og síðasta lagi er upplýsingaskyldan, þ.e.a.s. að margir kynnu kannski ekki ensku og hefðu því þann rétt að fá erlent efni útskýrt fyrir sér á klukkutíma fresti eða svo. Þrátt fyrir að þetta séu hæpin rök spyr ég hvað með það fólk sem er nákvæmlega sama?

Málið er nefnilega það að lítil sjónvarpstöð eins og Skjár einn gæti staðið frammi fyrir því að geta ekki sýnt ákveðin leik (eða sjónvarpsefni) vegna fjárskorts ef það væri skilyrði að hafa texta eða íslenska lýsingu (sem er auðvitað raunin). Í þessu tilfelli yrði ekki hægt að sýna leikinn. Er það réttlátt gagnvart þeim sem er alveg sama og væru meira en til í að sjá leikinn á ensku? Er betra að hafa engan leik, en leik án þýðingar? Ég er á því að þetta komi ríkinu nákvæmlega ekkert við og er viss um að hér er samkeppnisaðilinn að kæra (það var einhver sem kærði) Skjá einn og beita þannig ríkisvaldinu til að hnekkja á honum sem er miður.

Að lokum, ekkert sjónvarpstæki er fast á Skjá einum og gætu því þeir sem stuðast á texta og lýsingarleysi stöðvarinnar einfaldlega sett á aðra stöð eða gert eitthvað annað en að glápa á sjónvarpið! Þessi lög eru vond.

- - -

Gunnlaugur Jónsson ræddi þetta einnig í nýju bloggi Frjálshyggjufélagsins sem er að finna hér: http://blogg.frjalshyggja.is.


By Gudmundur at
2/04/2005 02:03:00 e.h.

Spjallaðu við mig: Skrifa ummæli