wþriðjudagur, mars 22, 2005


Á leið til Nýja Íslands í sumar!

Það var verið að bjóða mér að taka þátt í 6 vikna ferð til Nýja Íslands í Kanada. Ég mun ferðast til Manitoba þann 24 júní og vera þar til 7. ágúst en afmælið mitt, 11. júlí, verður því en einu sinni haldið í Kanada!

Í 6 vikur mun ég kynnast sögu og menningu Vesturfaranna og ferðast um alla þá staði sem þeir settust að á í Manitoba. Ennfremur mun ég búa hjá Vestur íslenskri fjölskyldu allan tímann. Meira um það þegar mér berast frekari upplýsingar.

Ég ætla reyna vera duglegur að skrifa um bæði för mína og þennan merkilega atburð Íslandssögunnar á næstunni en þegar ég bjó í Wolfville í Nova Scotia setti ég saman þennan textastubb um Vesturfarana:

- - - - - - -

(Mynd frá Gimli, Nýja Ísland)

VESTURFARAR


Þó þú langförull legðir,
sérhvert land undir fót,
bera hugur og hjarta,
samt þíns heimalands mót.
(orti Vesturfarinn og skáldið Stephan G. Stephansson.)

Það var fyrir um 125 árum síðan að Íslendingar fóru að hópast til Vesturheims í leit að betra lífi. Talið er að allt að fjórði hver maður hafi freistað gæfunnar og haldið vestur yfir haf. Fólksfjölgun hafði verið mikil á Íslandi á þessum tíma án þess að atvinnutækifærum fjölgaði. Einnig hafa vonbrigði í sjálfstæðisbaráttunni, Öskjugos 1875 og áróður Ameríkuagentana haft þar áhrif. Landnemunum stóð til boða mikil aðstoð kanadískra stjórnvalda auk þess sem lönd stóðu þeim til boða gjaldlaust til eignar eftir fimm ára veru á þeim. Íslendingarnir prófuðu að koma sér fyrir á mörgum stöðum í Kanada, m.a. Muskoka, Kinmount norðan við Toronto og Nova Scotia. Talið er að rúmlega 100 manns hafi reynt að setjast að í Nova Scotia, rétt um 100 km frá Halifax, í landi sem þeir kölluðu Markland. Löndin þar reyndust ekki nægjanlega frjósöm auk þess sem bæði elgir og fiskur var í mun minna mæli en Ameríkuagentarnir höfðu sagt. Flestir Íslendingarnir í Nova Scotia fóru því að vinna fyrir fylkið við námugröft og vegagerð sem dæmi. Stöðugar fregnir bárust þeim þó af bjartri framtíð Íslendinga í Gimli við Winnipeg vatn í Manitoba og varð það til þess að mikill fjöldi fólks fluttist frá Nova Scotia þangað. Um 1882 var meiri hluti Íslendinga fluttir frá fylkinu en einhverjir urðu eftir í bænum Lockport og búa þar enn.

Landbúnaðarráðherra hefur látið hafa eftir sér að Íslendingabyggðirnar í Manitoba fylki séu skemmtilegustu staðir í veröldinni fyrir Íslendinga að sækja heim. Í fylkinu, og þá sérstaklega í kringum Winnipeg vatn, er að finna helling af bæjum með nöfnum eins og: Husavik, Hnausar, Miklavik og Siglavik en talið er að um 150-200 þúsund manns í Kanada eigi ættir sínar að rekja til Íslands í þriðja til fimmta ættlið. Íslenskan er reyndar á undanhaldi, flestir kunna ekki nema nokkur orð. Mikið af íslenskum orðum eru þó enn notuð eins og t.d. vínarbrauð, skyr, hangikjöt, amma, afi, langamma og langafi svo nokkur dæmi séu nefnd. Bærinn Gimli (þýðir Nýr Himinn) er einn af fjölmörgum Íslendingabæjunum í Kanada. Gimli og svæðið í kring kölluðu landnemarnir Nýja Ísland en þar höfðu þeir haft einkarétt á landnámi þar til 1897.
Eftir það fóru fleiri að setjast að og þá aðallega Úkraínumenn. Þeir voru kallaðir Gallar og voru samskipti þeirra við Íslendingana hin skrautlegustu þó þjóðirnar hafi blandast með tímanum. Í Gimli er haldin Íslendingahátíð á hverju ári í ágúst mánuði en milli 40-80 þúsund manns sækja hátíðina að jafnaði. Þar eru sungin íslensk lög, ljóð lesin, ræður, kveðjur og trallað.

Í dag eru flestir Vesturfararnir í Winnipeg og Nýja Íslandi og eru þar þess víða merki. Fyrir utan þinghúsið í Winnipeg er sem dæmi stytta af Jóni Sigurðssyni. Í Manitoba háskóla er Íslenskudeild sem kennd er í íslensk mál og bókmenntir, saga og bókmenntir Vestur-Íslendinga. Einnig íslensk bókasöfn í Manitoba háskóla, Viktoríu háskóla í Bresku Kólumbíu og víðar í landinu. Fullt af söfnum og minnisvörðum eru líka að finna í Manitoba fylki um Vesturfarana og Ísland.
Að lokum sem dæmi um hversu mikið af viðburðum tengdum Íslandi eru í Kanada á ári hverju þá hefur ræðismaður Íslands í Winnipeg ásamt fleirum staðið að meira en 200 atburðum það sem af er árinu nú þegar níundi mánuður ársins er að fara af stað.
(30. janúar 2002)


By Gudmundur at
3/22/2005 09:59:00 f.h.

Spjallaðu við mig: Skrifa ummæli