wlaugardagur, apríl 02, 2005


Þreyta, Viðskiptafrelsi og Glappaskot Auðunar

Maður er ekki frá því að vera svolítið soðinn. Ég var að vinna í nótt og svo skóli kl 9 í morgun. Orri var búinn að bjóða mér að koma með sér á Útvarp Sögu kl 13 í dag til þess að ræða hlutverk ríkisins í menningu og listum (sem var frestað fyrir viku) en þættinum var enn og aftur frestað en nú þar til á morgun á sama tíma. Við fórum til Útvarps Sögu áðan og vakti það athygli mína hvað yfirbyggingin þeirra er lítil. Allir sem heimsækja RÚV eftir að hafa skoðað aðstöðuna á ÚS fá áfall, þvílíkt bruðl á RÚV eins og svo sem allsstaðar þar sem ríkið er með starfsemi.

- - -

Í gær voru 150 ár frá því Íslendingar fengu viðskiptafrelsi frá Dönum. Þá máttu Íslendingar eiga viðskipti við alla sem við þá vildu skipta. Frelsið varð til þess að íslenskt samfélag kúventist en þetta spor var vafalaust hornsteinn þeirrar auðlegðar sem við Íslendingar búum við í dag. Fyrir áhugasama er mjög góð grein um viðskiptafrelsið og þær þjóðfélagsbreytingar sem því fylgdi í Morgunblaðinu í dag eftir Halldór Bjarnason.

- - -

Leiðari Morgunblaðsins í dag segir að styrkir til landbúnaðarins verði að lækka um rúmlega 5 milljarða vegna Doha viðræðnanna innan WTO. Morgunblaðið gagnrýnir hart að Guðni Landbúnaðarráðherra vill færa þessa styrki, sem fella verður niður, í svokallaða græna styrki svo bændur fái áfram sömu krónutölu frá ríkinu. Þetta er auðvitað súrrealísk hugmynd og mikil hræsni þar sem lækkun stuðnings við landbúnað í vestrænum löndum er hugsuð til að gera samkeppnisstöðu þróunarlandanna betri. The Economist hefur áætlað að þessi aðgerð komi 140 milljón mans í þróunarlöndunum úr fáttækt. Ef aðeins á að breyta nafni styrkjanna, ekki lækka þá, er samkeppnisstaða þróunarlandanna varla mun bættari. Það sem er ekki síður slæmt er að Íslendingar styrkja landbúnaðinn hjá sér meira en flest önnur ríki í heimi en neytendur uppskera þessa rausnarlegu styrki með því að þurfa greiða miklu hærra verð fyrir landbúnaðarvörur í matvöruverslunum.


Frjálshyggjufélagið hefur barist fyrir svokallaðri skuldabréfaleið sem meira að segja Össur hefur lýst yfir stuðningi við, en þó aðeins við okkur í félaginu. Það er sennilega síðasti séns núna fyrir stjórnvöld að fara þessa leið og gera þannig mörgum bændum kleift að hætta búskap með reisn og leggja svo niður sovét fyrirkomulag landbúnaðarmála á Íslandi.

- - -

Að lokum verð ég að lýsa yfir miklum vonbrigðum með Auðun Georg sem í gær hætti við að taka við fréttastjórastarfinu. Þar sem hann laug í hádegisviðtali á RÚV gat hann varla gert annað en það er hreint út sagt ótrúlegt hversu illa hann kom frá þessu viðtali. Fréttastofa RÚV lýsir nú yfir sigri sem er ekki sigur þeirra í barráttunni sem hefur verið í gangi. Auðun sagði ósatt og fyrir það varð hann að hætta sem hafði ekkert að gera með ráðninguna sem slíka.


By Gudmundur at
4/02/2005 07:45:00 e.h.

Spjallaðu við mig: Skrifa ummæli